Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun að margir stjórnarliðar hefðu tilhneigingu til að kenna almenningi um stöðuna í efnahagsmálum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði í fyrri umræðum ekki tekið neina ábyrgð á stöðunni og helst vísað í ósjálfbærar launahækkanir.

Stór hluti vinnumarkaðarins hefði hins vegar tekið ábyrgð á stöðunni með nýgerðum kjarasamningum.
„Ríkisstjórnin hins vegar afneitar sinni ábyrgð á verðbólgunni og hærri vöxtum. En með aðgerðum sínum í fjárlagafrumvarpinu var bálið tendrað og það logar enn. Það er í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur,“ sagði formaður Viðreisnar.
Hún spurði fjármálaráðherra hvort ríkisstjórnin bæri enga ábyrgð á því að Seðlabankinn hefði nú hækkað stýrivexti í ellefta sinn. Það besta sem ráðherrann byði upp á væri afneitun á eigin þenslu. Þorgerður Katrín spurði hvort ríkisstjórnin hefði einhverjar áætlannir um að ganga í takti með Seðlabankanum við að ná niður verðbólgu.

Bjarni sagðist eins og aðrir hafa áhyggjur af verðbólgunni. Gjaldskrárhækkanir í fjárlagafrumvarpinu hefðu hins vegar haft hverfandi áhrif á verðbólgu eða sem næmi 0,4 til 0,5 prósentum. Kaupmáttur nánast allra tekjutíunda hefði vaxið stöðugt á undanförnum árum og útlit fyrir að hann héldi áfram að aukast á þessu ári, þrátt fyrir verðbólgu og vaxtahækkanir.
Þá væri ekki rétt að hann hefði nokkru sinni gefið í skyn að almenningur bæri ábyrgð á verðbólgunni. Það væri hins vegar staðreynd að það væri mikil spenna í efnahagsmálum.
„Og það birtist meðal annars í mikilli einkaneyslu. Og við erum nú sem þjóðfélag að taka út lífskjör sem ekki eru langtímaforsendur fyrir,“ sagði fjármálaráðherra.

Þorgerður Katrín sagði fjármálaráðherra þruma út úr sér hagstærðum eins og þær væru eitthvert listform.
„Ætlar hann ekkert að gera og koma fram með tillögur um aðgerðir sem koma í veg fyrir tólftu stýrivaxtahækkun Seðlabankans í röð,“ spurði Þorgerður Katrín.
Fjármálaráðherra sagði það engu skila að leita að sökudólgum. Mikilvægast væri að ná fram afkomubata hjá ríkissjóði eins og gert hefði verið og að allir ynnu saman að lækkun verðbólgunnar.
„Seðlabankinn situr uppi með það núna að hafa væntanlega hækkað vexti of hægt, vanspáð verðbólgu of oft og hefur hlutverki að gegna til að stilla af verðbólguvæntingar inn í framtíðina sem eru algerlega farnar úr böndunum,“ sagði Bjarni Benediktsson.