Styles hreppti öll verðlaunin sem hann var tilnefndur til; platan hans Harrys House var valin poppplata ársins, lag hans As it Was lag ársins og þá hlaut hann aðalverðlaun hátíðarinnar, er listamaður ársins í Bretlandi.
Þakkarræða hans fyrir síðastnefndu verðlaunin hefur vakið athygli; hann þakkaði móður sinni fyrir að hafa skráð hann í hæfileikakeppnina X-Factor á sínum tíma, þar sem hann kom fyrst fram á sjónarsviðið, og svo þakkaði hann sérstaklega félögum sínum í strákasveitinni One Direction - sem gerði hann að alþjóðlegri stórstjörnu. Allt ætlaði þá um koll að keyra í tónleikahöllinni, enda minnist Styles sjaldan á fyrrverandi félaga sína fjóra núorðið.
Þakkarræðu Styles má horfa á hér fyrir neðan.
Meðal annarra verðlaunahafa á Bresku tónlistarverðlaununum í gær eru hin bandaríska Beyoncé, sem var valin besti alþjóðlegi tónlistarmaður ársins. Lag hennar Break My Soul var jafnframt valið það besta á alþjóðavísu.
Dúettinn Wet Leg var útnefndur hljómsveit ársins á Bretlandi og þá hrepptu þau einnig verðlaunin nýliðar ársins.