Newcastle og Man United mætast á Wembley þann 26. febrúar næstkomandi. Það er komin drykklöng stund síðan annað hvort þessara liða lyfti bikar og eftirvæntingin því mikil. Það er hins vegar ljóst að Nick Pope, aðalmarkvörður Newcastle, mun missa af leiknum.
Pope fékk rautt spjald í 2-0 tapi Newcastle gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á laugardag eftir að hafa handleikið knöttinn utan vítateigs. Spjaldið þýðir að Pope fer í þriggja leikja bann og missir meðal annars af úrslitaleiknum.
Martin Dúbravka, varamarkvörður Newcastle, gegn Liverpool má ekki spila úrslitaleikinn þar sem hann lék með Man United – á láni – í keppninni fyrr á þessari leiktíð. Þar sem Karl Darlow er á láni hjá Hull, frá Newcastle, mun það falla í skaut hins 29 ára gamla Karius að verja mark Newcastle á Wembley.
Nick Pope: suspended for the League Cup final
— B/R Football (@brfootball) February 18, 2023
Backup Martin Dubravka: cup-tied after appearing for Manchester United in the competition
Third string: Lloris Karius pic.twitter.com/EWBZxGd6Ru
Sá á ekki góðar minningar af úrslitaleikjum en vorið 2018 lék hann með Liverpool í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þar gerði hann sig sekan um tvö skelfileg mistök og Liverpool tapaði leiknum. Skömmu síðar festi félagið kaup á Alisson og Karius var lánaður til Tyrklands.
Þar var hann í tvö ár áður en hann fór til Union Berlín í heimalandinu og svo Newcastle á síðasta ári. Hann hefur ekki enn leikið fyrir félagið en nú er ljóst að hann mun allavega spila einn leik á þessari leiktíð.
Stuðningsfólk Newcastle krossar eflaust fingur að sá leikur fari betur fyrir Karius heldur en síðasti úrslitaleikur sem hann lék fyrir enskt félag.