Umræddar verkfallsaðgerðir áttu að hefjast á hádegi þriðjudaginn 28. febrúar.
Aðrar verkfallsaðgerðir sem þegar eru hafnar halda áfram og félagsmenn Eflingar hjá Íslandshótelum, Berjaya Hotels, Reykjavík Edition, Samskipum, Skeljungi og Olíudreifingu eru áfram í verkfalli.
„Með verkbanni hafa Samtök atvinnulífsins fært kjaradeiluna að ystu mörkum stigmögnunar, langt umfram afmarkaðar verkfallsaðgerðir Eflingarfélaga. Í ljósi þessa er nauðsynlegt að endurmeta stefnuna og telur samninganefnd ekki rétt á þessum tímapunkti að félagið efni til frekari stigmögnunar verkfallsaðgerða,“ segir í yfirlýsingu á vef Eflingar.
Forsvarsmenn aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífisins samþykktu með afgerandi meirihluta verkbann á félagsmenn Eflingar, sem hefjast á þann 2. mars. Í tilkynningu segir að 94,73 prósent hafi greitt atkvæði með verkbanni. Einungis 3,32 prósent greiddu atkvæði á móti. Kjörsókn atvinnurekenda var 87,88 prósent.
Efling boðaði til mótmæla í dag vegna verkbanns Samtaka atvinnulífsins og þess sem kallað er dugleysi stjórnvalda.