Frá því í október hafa fjölmargir greinst með streptókokkasýkingu hér á landi. Meirihluti þeirra sjúklinga sem fær streptókokka fær hálsbólgu en bakteríurnar geta þó verið hættulegar og meðal annars valdið blóðeitrun og sýkingum í vöðva. Fyrir kórónuveirufaraldurinn veiktust árlega á 15 til 20 Íslendingar alvarlega af völdum streptókokkasýkinga. Þeir eru þegar orðnir fleiri það sem af er þessu ári.
„Þær voru átján talsins allt árið 2022 en í janúar voru þær nítján talsins. Þannig það er alveg augljóslega aukning á þessum alvarlegu sýkingum,“ segir Erna Milunka Kojic yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.
Hún segir dæmi um að allt að átta sjúklingar hafi legið á gjörgæslu þegar mest var í janúar. Þá segir hún þrjá hafa látist af völdum alvarlegrar streptókokkasýkingar frá því í október en um eldra fólk hafi verið að ræða. Tölurnar fyrir kórónuveirufaraldurinn sýna að jafnaði látast þrír til fimm á ári úr streptókokkum á Íslandi.
„Dánartíðnin er ekkert endilega mikið meiri í ár heldur en hún hefur verið kannski undanfarin ár. Það þarf að skoða það betur. Faraldurinn er ekkert búinn heldur. Ég held að það sé mikilvægara umræðuefni hversu mikil byrði er af þessum sýkingum akkúrat í ár.“
Þannig liggi sjúklingar oft lengi inni á spítalanum vegna sýkinganna.
Erna segir merki um að mögulega sé að draga úr fjölda þeirra sem sýkist alvarlega af bakteríunni.
„Okkar tilfinning er sú að þetta náði þarna einhverju hámarki í janúar og okkur finnst, ég hef ekki tölurnar, mér finnst eins og allavega tíðnin af þessum sýkingum sé eitthvað í rénun en tíminn mun leiða það í ljós.“