Samfylkingin mælist stærsti flokkur landsins um þessar mundir en Kristrún varaði við því í ræðu sinni að eltast við skoðanakannanir.
„En ég vil samt bara nýta tækifærið til að hnykkja á því sem ég sagði í stefnuræðu minni á landsfundi: Við munum ekki elta skoðanakannanir, og það er enn í gildi. Og við munum ekki heldur elta þá sem hafa hæst hverju sinni á samfélagsmiðlum. Það er bara þannig.“
En stefna Kristrúnar er skýr. Hún vill í ríkisstjórn.
„Samfylkingin stefnir í stjórn. Við ætlum að vera ráðandi afl í næstu ríkisstjórn. Og það er ekki vegna þess að við séum í vinsældakeppni eða vegna þess að okkur langi svo að sitja í ráðherrastólum — og nei, það er ekki vegna þess að við séum svo miklar keppnismanneskjur, eins og forsætisráðherra orðaði það núna á dögunum,“ sagði Kristrún.
„Eftir óslitinn áratug með Sjálfstæðisflokkinn við völd, og ríkisstjórn sem er búin að gefast upp á öllu, er löngu kominn tími á breytingar. Eftir tíu löng ár í stjórnarandstöðu blasa hvarvetna við okkur verkefni sem kalla á klassískar lausnir jafnaðarfólks; sem kalla á okkur sósíaldemókrata til verka. Það er einfaldlega staðan. Og við tökum hana alvarlega. Við ætlum að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi eftir áratug hnignunar. Og eftir því sem þessi ríkisstjórn hangir lengur á stólunum, algjörlega verkstola, þá bætist við verkefnalistann. Við ætlum að koma skikki á stjórn efnahagsmála; vinna gegn verðbólgunni um leið og við verjum heimilisbókhaldið hjá fólki. Því staðreyndin er þessi: Ríkisstjórnin hefur misst alla stjórn.“