Indónesískur dómstóll dæmdi tvo embættismenn heimaliðsins Arema FC seka um glæpsamlega vanrækslu sem hefði valdið dauða í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBCRífa niður leikvanginn í Indónesíu.
Formaður skipulagsnefndar liðsins hlaut átján mánaða fangelsisdóm en öryggisstjóri þess eins árs dóm. Saksóknarar fóru fram á sex ára fangelsisdóma yfir þeim.
Dómarinn í málinu sagði að þrátt fyrir að heimaliðið hefði gert ýmsar ráðstafanir í ljósi þess að oft hefði slegið í brýnu á milli stuðningsmanna Arema og erkifjendanna Persebaya Surabaya þá hefði það einnig selt þúsundir miða umfram það sem leikvangurinn rúmaði og hunsað læstar útgönguleiðir.
Gríðarlegur troðningur myndaðist á Kanjuruhan-vellinum þegar lögreglumenn beittu táragasi á aðdáendur Arema sem þustu út á völlinn og aðra í stúkum eftir að liðið tapaði sínum fyrsta leik í áraraðir í október.
Hundrað þrjátíu og fimm manns létu lífið og um sex hundruð slösuðust. Fjöldi barna var á meðal þeirra látnu. Slysið var það næst versta á knattspyrnuvelli í sögunni.
Auk fulltrúa liðsins sem hlutu dóma í dag eru þrír lögreglumenn ákærðir fyrir að skipa undirmönnum sínum að beita táragasinu. Reglur Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) banna notkun táragass á leikjum.