Nýverið var staðfest að hinn 31 árs gamli Firmino myndi ekki framlengja samning sinn við Liverpool eftir átta ár í Bítlaborginni. Talið er líklegt að hann fari í MLS-deildina í Bandaríkjunum en þá vill Al Nassr, lið Cristiano Ronaldo í Sádi-Arabíu ólmt fá hann í sínar raðir.
Á blaðamannafundi fyrir leik helgarinnar viðurkenndi Klopp að ákvörðun framherjans hefði komið sér á óvart.
„Þetta hefði getað farið á tvo vegu og fór annan þeirra. Ég virði það. Það er eðlilegt miðað við þetta langa samband sem við og höfum átt og Bobby (gælunafn Firmino) hefur átt við félagið,“ sagði þjálfarinn.
„Ég elskaði móttökurnar sem hann fékk þegar hann kom inn á gegn Manchester United. Það er samt enginn tími fyrir kveðjustund núna, það er nægur tími til þess seinna á tímabilinu,“ bætti Klopp við áður en hann sagði að Firmino væri alltaf velkominn aftur á Anfield.
„Ég held að hann sé einn af þessum leikmönnum að þó svo hann væri í liði andstæðinganna þá væri fólk ánægt að sjá hann.“
Firmino hefur spilað alls 354 leiki fyrir Liverpool. Í þeim hefur hann skorað 108 mörk og gefið 79 stoðsendingar.