Ársverðbólga mælist nú 10,2 prósent og leita þarf nokkuð mörg ár aftur í tímann til að finna sambærilegar verðbólgutölur.
Sérfræðingar Íslandsbanka og Landsbankans hafa nú rýnt í tölurnar og spáð fyrir um þróun næstu missera, en næstu verðbólgutölur verða gefnar út 28. mars næstkomandi.
Þannig reiknar Íslandsbanki með að vísitala neysluverðs hækki um 0,7 prósent á milli mánaða. Það felur í sér að ársverðbólga fari úr 10,2 prósent í 10,0 prósent.
Landsbankinn er örlítið bjartsýnni og spáir 0,61 prósent hækkun á milli mánaða á vísitölu neysluverðs. Það felur í sér að ársverðbólga fari úr 10,2 prósent í 9,8 prósent.
Báðir bankar spá því að verðbólga muni fara lækkandi á næstu misserum. Sú þróun verði þó hæg. Þannig reiknar Landsbankinn með yfir átta prósent verðbólgu þegar sumarið kemur. Er Íslandsbanki einnig á sömu slóðum hvað varðar framtíðarspá.
„Við, eins og aðrir greinendur, höfum undanfarið verið of bjartsýn um verðbólguhorfur og er óvissan um nærhorfurnar mikil. Á næstu mánuðum munu stórir hækkunarmánuðir þó detta út úr ársverðbólgunni og þess vegna teljum við að verðbólga muni hjaðna. Í bráðabirgðaspá okkar spáum við 0,4% hækkun í apríl, 0,3% í maí og 0,5% í júní. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 7,6% í júní. Þetta er þó hægari hjöðnun en við höfðum áður gert ráð fyrir. Við gerum svo ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 8,0% á árinu,“ segir í greiningu Íslandsbanka.
Í næstu viku mun peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynna næstu stýrivaxtaákvörðun. Fastlega er gert ráð fyrir því að nefndin muni hækka stýrivexti. Þannig spáir Íslandsbanki 0,75 prósentustiga hækkun, sem myndi setja stýrivexti í 7,25 prósent.