Innlent

Telja ó­lík­legt að and­látið hafi borið að með sak­næmum hætti

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Andlátið varð á Grundarstíg í Reykjavík.
Andlátið varð á Grundarstíg í Reykjavík. Stöð 2/Steingrímur Dúi

Ekki var hægt að yfirheyra mennina tvo, sem handteknir voru í morgun í tengslum við andlát í Þingholtunum í Reykjavík, fyrr en síðdegis sökum ástands þeirra. Lögregla segir það ekki talið líklegt að svo stöddu að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti en það mun skýrast betur í dag. 

Þetta segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu. 

Tilkynning um andlátið barst á sjöunda tímanum í morgun en lögregla var kölluð til eftir kvörtun barst um hávaða og háreysti í húsinu. Þegar lögregluþjóna bar að garði voru þrír menn í húsinu, einn þeirra meðvitundalaus með litlum lífsmörkum. 

Sjúkrabíll var strax kallaður til og hóf lögregla endurlífgun á vettvangi. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi. 

Hinir tveir mennirnir voru handteknir á staðnum og fluttir í fangageymslu. Rannsókn málsins er í fullum gangi að sögn lögreglu. 

Lögreglan hefur innsiglað íbúðina þar sem maðurinn fannst örendur.Stöð 2/Steingrímur Dúi

Tengdar fréttir

Tveir handteknir í tengslum við andlát í miðbænum

Tveir menn hafa verið handteknir í tengslum við andlát í Þingholtunum í morgun. Tilkynning barst á sjöunda tímanum í morgun um hávaða og háreysti í húsi en þegar lögregluþjóna bar að garði var þar maður meðvitundarlaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×