AP fréttaveitan hefur eftir forsvarsmönnum VII Pillars Entertainment, dreifingaraðila myndarinnar, að sýning hennar hafi einnig verið bönnuð í Macao í Kína. Þeir sögðu ekki hafa fengið neina ástæðu fyrir því að sýningarnar hafi verið stöðvaðar en til stóð að sýna myndina í um þrjátíu kvikmyndahúsum í Hong Kong.
Hætt var við forsýningu í gær vegna „tæknilegra ástæðna“ en til stóð að frumsýna myndina í gær.
Í myndinni ganga Bangsímon og vinir hans af göflunum og myrða fólk í massavís.
Yfirvöld í Kína hafa lengi verið ósátt við Bangsímon en Xi Jinping, forseti Kína, þykir líkur bangsanum viðkunnalega. Árið 2018 var Bangsímon bannaður í Kína vegna þess að fólk var að gera grín að Xi og bera hann saman við teiknimyndabjörninn.
Uppruna þessa gríns má rekja til myndar frá 2013 af Xi og Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
Hong Kong var bresk nýlenda til ársins 1997 þegar Bretar gerðu samkomulag við Kína um að taka við stjórn eyjunnar. Því samkomulagi fylgdi skilyrði um að lýðræði Hong Kong og réttindum íbúa yrði viðhaldið áfram.
Nokkur ár eru síðan það breyttist í Hong Kongo en Kommúnistaflokkur Kína hefur komið á ströngum öryggislögum og dregið verulega úr lýðræði á eyjunni.
Einn viðmælandi AP, prófessor við kvikmyndadeild háskóla í Hong Kong, segir að tilfellum þar sem sýning kvikmynda vegna ritskoðunar hafi verið bönnuð, hafi fjölgað á undanförnum árum. Hingað til hafi það að mestu beinst að sjálfstætt framleiddum stuttmyndum.