Innlent

Von­góðir um að halda tré­húsinu

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
DSC00931.jpeg

Formaður heilbrigðisnefndar segist bjartsýnn á að lausn finnist á málunum þannig að sex vinir geti fengið að halda trjákofanum sínum sem þeim hafði verið fyrirskipað að rífa. Drengirnir segja verkefnið hafa styrkt vináttu sína heilmikið.

Fréttablaðið greindi frá því um helgina að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefði fyrirskipað að rífa þyrfti trjáhús sem sex vinir á þrettánda ári hafa eytt miklum tíma í að smíða undanfarna mánuði.

„Það var bara miði hérna á stiganum. Og við fengum bara tilkynningu að við þurfum að taka hann niður fyrir 7. apríl. Ef við tækjum hann ekki ætluðu þeir að gera það, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur,“ útskýrðu drengirnir. Þeir sögðust ekki hafa fengið almennilegar útskýringar á hvers vegna þyrfti að rífa kofann en það hefði eitthvað með það að gera að hann væri ekki nægilega traustur, að eldvörnum væri ábótavant og að hætta væri á að heimilislausir aðilar kynnu að hreiðra þar um sig. 

Fréttirnar um að rífa þyrfti kofann komu eðlilega illa við drengina enda höfðu þeir skipulagt sumarið með viðveru þar í huga.

„Við vorum búnir að sjá fyrir okkur að kannski mæta hérna á hverjum einasta degi, fara kannski ofan í Reynisvatn, búa okkur til fleka og fara að veiða. Bara hafa kannski eitt af bestu sumrunum sem við gætum haft.“

Garðar Breki, Sigurður Logi, Alexander Logi, Andri Pétur, Arnar Magni og Andri Pétur hafa eytt miklum tíma undanfarna mánuði í að smíða þetta forláta tréhús. Vísir/Arnar

Aðalsteinn Haukur Sverrisson er formaður heilbrigðisnefndar. Hann kom upp að Reynisvatni í dag þar sem kofinn er staðsettur, tók út meistaraverkið og ræddi við drengina.

„Þetta er geggjaður kofi, flott að sjá þessa ungu duglegu stráka leika sér í náttúrunni. Ég vill sjá meira af þessu,“ sagði Aðalsteinn. Hann segir málið falla á milli hluta þar sem ekki séu til nein eyðublöð til að sækja um leyfi til að byggja tréhús í borgarlandi.

„Heilbrigðiseftirlitið fékk bara tilkynningu um kofann á sínum tíma og út af ákveðnum reglum sem gilda í borgarlandinu er þeim skylt að sinna eftirlits og öryggiseftirliti með hlutum sem eru byggðir í borgarlandi,“ segir Aðalsteinn. Hann tekur fram að fyrst og fremst sé horft á málið út frá öryggissjónarmiðum.

„Það er ekki af neinum illum ásetningi sem að er verið að gera þetta, þetta er bara náttúrulega ákall á auknar öryggisráðstafanir, sérstaklega til að passa upp á börnin okkar. Þegar ég var strákur hefði enginn skipt sér af þessu en því miður eru breyttir tímar.“

Formaður heilbrigðisnefndar segir málið falla á milli hluta þar sem ekki séu til nein eyðublöð til að sækja um leyfi til að byggja tréhús í borgarlandi.Vísir/Arnar

Aðalsteinn segist þó bjartsýnn á að lausn finnist á málunum og segir samtalið komið af stað.

Drengirnir eru líka vongóðir. 

„Við erum alveg til í að spyrja um leyfi og leysa það sem þarf að leysa, finna lausnir. Og viljum líka þakka fyrir að ef við fáum að hafa kofann, alveg innilega, því við vorum búnir að eyða svo miklum tíma í þetta verk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×