Öllum fastráðnum starfsmönnum skólans var sagt upp fyrstu vikuna í mars. Listdansskólinn var stofnaður við Þjóðleikhúsið árið 1952 en Listaháskólinn tók við rekstrinum árið 2006. Frá 2018 hefur skólinn verið rekinn sem sjálfseignarstofnun.
Guðmundur Helgason hefur verið við stjórnvöllinn í áratug en skólinn hefur átt í nokkrum fjárhagslegum erfiðleikum síðustu misseri.
„Við fengum einhverja óljósa hugmynd um að við myndum halda áfram á næsta ári en þau tækju sér þann tíma í að skoða allt landslagið, alla skólana og alla fjármögnun. Okkur finnst þau nú hafa fengið nægan tíma til þess, þetta eru orðin sautján ár. Þannig að það væri mjög gott fyrir krakkana hérna í skólanum sérstaklega; að vita hvort þau fái að halda áfram námi næsta vetur eða ekki,“ sagði Guðmundur í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hann segir að krakkarnir velti fyrir sér stöðu mála.
„Þau spyrja alveg, er þetta síðasta sýningin okkar? Og ég segi alltaf: „Nei, ég trúi því ekki.“ Ég trúi því ekki að ráðamenn láti þetta verða síðustu sýningu Listdansskóla Íslands með alla þessa 71 árs sögu og alla þá danslistamenn sem hafa farið í gegnum skólann. Ég neita að trúa því.“