Innlent

Enginn kannast við mann sem framdi vopnað rán í Innri-Njarð­­vík

Árni Sæberg skrifar
Ránið var framið í Stapagrilli í Innri-Njarðvík.
Ránið var framið í Stapagrilli í Innri-Njarðvík. Facebook/Stapagrill

Laust fyrir klukkan 15 í dag ruddist maður með hettu, sólgleraugu, grímu fyrir vitum og vopnaður hnífi inn í Stapagrill í Innri-Njarðvík og ógnaði starfsfólki. Hann komst á brott með reiðufé úr afgreiðslukassa sjoppunnar.

Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum segir í samtali við Vísi að lögreglan hafi málið til rannsóknar. Aðeins hafi náðst óljós mynd af ræningjanum og enginn kannist við hann. Það flæki leit að honum verulega.

Hún segir atvik á borð við ránið sem betur fer ekki algeng í Innri-Njarðvík og fólk sé eðlilega nokkuð slegið eftir atvikið.

Víkurfréttir, sem greindu fyrst frá málinu, hafa eftir Grétari Þór Grétarssyni, eigandi Stapagrills, að afgreiðslustúlka sé í áfalli eftir ránið og líði ekki vel. Hún hafi reynt að loka afgreiðslukassanum þegar maðurinn var kominn með krumlur sínar í hann en hann þá veifað hnífnum að henni.

Annar starfsmaður, sem stóð á bak við grillið, hafi verið snar í snúningum og kallað til lögreglu, sem hafi verið fljót á staðinn. Maðurinn var þó kominn á brott þegar lögreglu bar að garði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×