Lífið

Arf­leifð skað­legrar karl­mennsku virðist lifa góðu lífi í steggjunum

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Þorsteinn V. Einarsson, kynjafræðingur, fyrirlesari og hlaðvarpsstjórnandi Karlmennskunar, segir steggjanir barn síns tíma.
Þorsteinn V. Einarsson, kynjafræðingur, fyrirlesari og hlaðvarpsstjórnandi Karlmennskunar, segir steggjanir barn síns tíma. Vísir/Davíð Þór Guðlaugsson/Getty.

Þorsteinn V. Einarsson, kynjafræðingur, fyrirlesari og hlaðvarpsstjórnandi Karlmennskunar, gagnrýnir þá hefð sem hefur myndast hér á landi í steggjunum. Hann segir tilvonandi brúðguma oftar en ekki vera niðurlægða.

Í færslu á samfélgasmiðlum segir Þorsteinn arfleifð eitraðrar karlmennsku vera grunninn að hefðinni og hvetur hann vinahópa að breyta til með vinsemd og kærleika. Steggjanir og gæsanir eru tíðar á þessum tíma árs, þar sem sumarið og brúðkaup eru handan við hornið.

Makinn ekki síður áhyggjufullur

„Ég steggjaði vin minn fyrir tæpum tuttugu árum og ég man að við strákarnir hugsuðum hvernig við gætum komið honum á óvart, gert hann skelkaðan og helst gengið fram af honum. Gert hann hræddan, gert hann að athlægi fyrir framan fjölmenni og annað með þann tilgang að niðurlægja. En auðvitað allt í umhyggju, eða það héldum við,“ segir Þorsteinn.

Hann segist hafa fengið fjölda skilaboða frá tilvonandi brúðgumum og mökum þeirra sem lýsa yfir áhyggjum fyrir deginum. 

„Vegna þess að þú ert að fara að gifta þig, fagna ástinni með ástvinum, þá ætla vinirnir að verja með þér heilum degi eða helgi og markmiðið er að niðurlægja, ganga fram af og vanvirða þarfir og vilja þinn,“ segir Þorsteinn og spyr sig: „Hversu öfugsnúin vinátta?“

„Verið aðeins meira flippaðir og frumlegir en að klæða stegginn í kvenfatnað.“

„Ég skora á alla sem eru að skipuleggja steggjun að rjúfa þessa ömurlegu hefð og skipuleggja dag sem raunverulega endurspeglar hlýjan hug og væntumþykjuna sem þið berið til vinar ykkar. Ef hann fílar að láta dúndra í sig paintball kúlum og gera sig að fífli, gerið það þá,“ segir Þorsteinn en telur þó flesta hlynntari því að eiga góða stund saman.

Að sögn Þorsteins er algengt að steggurinn sé látinn klæðast kvenmannsfötum sem gefur til kynna djúpt mótaða kvenfyrirlitningu og skaðlega karlmennsku. „Verið aðeins meira flippaðir og frumlegir en að klæða stegginn í kvenfatnað.“


Tengdar fréttir

Aron Einar niðurlægður í Laugum

Landsliðsfyrirliðinn stjórnaði Tabata tíma Laugum í hádeginu. Tíminn var hluti af steggjun fyrirliðans sem senn gengur í það heilaga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×