Á meðal þeirra kvenna sem nefndar eru á listanum í ár eru leikkonurnar Margot Robbie, Jenna Ortega, Zoe Saldana og Lily Rose Depp, fyrirsæturnar Emily Ratajkowski, Cara Delevingne og Bella Hadid og tónlistarkonurnar Doja Cat, Beyoncé, Ariana Grande, Rihanna og Selena Gomez.
Hin 35 ára gamla Graham er ein allra frægasta „plus size“ fyrirsæta heims. Hún hefur verið á forsíðum tímarita á borð við Vogue, Harper‘s Bazaar og Elle.
Þá hefur hún verið ötul talskona sjálfsástar og líkamsvirðingar í gegnum tíðina. Hún hefur reglulega sett inn myndir af sér þar sem hún sýnir alla þá fegurð sem mannslíkaminn hefur upp á að bjóða, eins og slit og fellingar.
Ættum að fagna líkama okkar nákvæmlega eins og hann er að hverju sinni
Tímaritið Maxim hefur valið kynþokkafyllstu konu heims árlega frá árinu 2000 og fetar Graham í fótspor kvenna á borð við Jessicu Alba, Jennifer Garner, Evu Longoriu, Katy Perry, Miley Cyrus, Taylor Swift og Hailey Bieber.
Það má segja að Graham hafi brotið blað í sögunni því hún er bæði elsta konan og fyrsta „plus size“ fyrirsætan til þess að hljóta titilinn. Graham segist þykja sérstaklega vænt um titilinn í ljósi þess að hún eignaðist tvíbura fyrir rétt rúmu ári síðan.
„Þegar ég sat fyrst fyrir á forsíðu Maxim átti ég ekki börn en í þetta skiptið á ég þrjú börn. Þetta er áminning um það að kynþokkinn kemur í alls konar myndum, ólíkum stærðum og gerðum. Ég hef reyndar alltaf verið talsmaður þess, en svo eignaðist ég sjálf börn og þá breyttist líkaminn svo mikið og ég átti erfitt með að sætta mig við líkama minn og hve mikið hann hafði breyst,“ segir Graham í viðtali við Maxim.
Hún segir lykilinn að sjálfsást því ekki aðeins felast í því að elska líkama sinn, heldur einnig að taka honum nákvæmlega eins og hann er að hverju sinni.