Eftir að samið var um starfslok við Antonio Conte virtist sem aðstoðarmaður hans, Cristian Stellini, ætti að stýra Tottenham út leiktíðina. Eftir 6-1 tap gegn Newcastle United um helgina var hins vegar ákveðið að sparka Stellini líka. Sem stendur mun Ryan Mason þjálfa liðið næstu vikur en samkvæmt þýska fjölmiðlinum Bild var Nagelsmann boðið starfið.
Hinum 35 ára gamla Nagelsmann var sparkað sem þjálfara Bayern fyrir skemmstu og tók Thomas Tuchel við starfi hans þar. Sá hefur ekki átt sjö dagana sæla og virðist sem Nagelsmann hafi skilað ágætis starfi þó yfirmenn hans hafi ekki verið sammála.
Nagelsmann ku hafa neitað tilboði Tottenham að svo stöddu en vildi þó ekki loka á neitt í sumar. Hann var þó ekki tilbúinn að stökkva til Lundúna þar sem bæði París Saint-Germain og Real Madríd gætu verið í þjálfaraleit þegar leiktíðinni lýkur.