Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi frá vopnahlénu í yfirlýsingu í dag. Hann segir viðræður við stjórnarher Súdans og uppreisnarsveita RSF um vopnahlé hafa staðið yfir í tvo sólarhringa. Niðurstaða hafi þó náðst að lokum og féllust báðar sveitir á að leggja niður vopn í þrjá sólarhringa.
Samkvæmt Guardian eru Bandaríkin þessa stundina að reyna að koma um þúsund Bandaríkjamönnum sem eru fastir í Súdan í burtu frá landinu. Sendiráð Bandaríkjanna í Súdan getur ekki hjálpað þeim Bandaríkjamönnum þar sem Bandaríkin fluttu allt starfsfólk sitt þar í burtu um helgina og skellti í lás.
Þessi hörðu átök í Súdan brutust út á milli súdanska stjórnarhersins, sem leiddur er af herforingjanum Abdel Fattah al-Burhan, og RSF, sem leiddur er af Mohamed Hamdan Dagalo, þann 15. apríl síðastliðinn. Fljótlega eftir það dreifðust átökin út um allt landið.
Herforingjarnir tveir tóku höndum saman í október 2021 og tóku völdin í Súdan. Yfirstandandi átök eru rakin til mikillar valdabaráttu innan súdanska hersins. Rekja má þá baráttu til deilna um hvernig ætti að innleiða RSF inn í súdanska herinn.