Liverpool gerði jafntefli við Aston Villa þegar liðin mættust á Anfield í gær en leikurinn var síðasti heimaleikur Liverpool á tímabilinu. Fjórir leikmenn félagsins léku þar sinn síðasta heimaleik fyrir félagið en þeir Naby Keita, Alex Oxlade-Chamberlain, James Milner og Roberto Firmino munu allir yfirgefa félagið þegar samningar þeirra renna út í sumar.
Vinsældir Roberto Firmino á meðal stuðningsmanna Liverpool eru gífurlegar en hann kom til félagsins árið 2015 frá þýska félaginu Hoffenheim þar sem hann hafði leikið í fjögur tímabil. Leikmennirnir fjórir fengu allir heiðursvörð eftir leik en óhætt er að segja að fögnuðurinn hafi verið mestur þegar Firmino steig fram.
A special Anfield farewell pic.twitter.com/2BabCYnf7d
— Liverpool FC (@LFC) May 20, 2023
Stuðningsmenn Liverpool voru byrjaðir að syngja til heiðurs Firmino löngu áður en hann kom inn á völlinn sem varamaður á 72. mínútu leiksins en hann skoraði jöfnunarmarkið á 89. mínútu við mikinn fögnuð áhorfenda.
Þegar leik var lokið gekk Firmino hringinn á vellinum og sungu stuðningsmenn hástöfum. Það mátti sjá tár á hvarmi Firmino sem skorað hefur 81 mark í 255 leikjum fyrir félagið.
— Liverpool FC (@LFC) May 20, 2023
James Milner er sömuleiðis í hávegum hafður á Anfield og þó svo Oxlade-Chamberlain og Naby Keita hafi ekki náð að láta sína frægðarsól rísa jafn hátt fengu þeir sömuleiðis góðar móttökur að leik loknum í gær.
Allir voru leikmennirnir hluti af liði Liverpool sem vann enska meistaratitilinn árið 2020 í fyrsta skipti í 31 ár, Meistaradeild Evrópu árið 2019 sem og deildabikarinn og FA-bikarinn á síðasta tímabili.
A moment to remember pic.twitter.com/pj62Ae1rZs
— Liverpool FC (@LFC) May 20, 2023