Þetta kemur meðal annars fram í tilkynningu Isavia til farþega og Dýraverndunarsambands Íslands. Tilefnið eru gular veðurviðvaranir á nær öllu landinu vegna suðvestan hvassviðris eða storms sem gengur yfir landið á morgun.
Eini landshlutinn sem virðist sleppa við veðrið verður Austurland en þar eru ekki í gildi gular viðvaranir. Viðvaranirnar taka gildi víðast hvar fyrir hádegi á morgun og segir Veðurstofa Íslands að ferðaveður verði varasamt. Fólk er auk þess hvatt til að huga að lausamunum.
Möguleiki á að flug raskist
Isavia biðlar til farþega um að fylgjast vel með upplýsingum um flugtíma á vef Isavia og upplýsingum um ástand vega á vef Vegagerðarinnar næstu tvo daga.
„Vegna veðurs getur orðið röskun á flugi til og frá Keflavíkurflugvelli og um innanlandsflugvelli frá morgni þriðjudagsins 23. maí og fram eftir morgni miðvikudaginn 24. maí 2023. Veðurspá gerir ráð fyrir töluverðum vindi og einhverri úrkomu.“
Þá segir í tilkynningu frá Dýraverndarsambandi Íslands að mikilvægt sé að bændur hugi að dýrum sínum. Sérstaklega ungviði eins og folöldum og lömbum sem gætu ofkælst.