Fyrir leikinn voru Grindvíkingar í 6. sæti deildarinnar með tvo sigra, tvö jafntefli, tvö töp og tvö mörk í mínus. Sigur Grindavíkur var nokkuð öruggur eins og úrslitin gefa til kynna, en staðan var 3-2 í hálfleik.
Það vantaði ekki mörkin í leiki kvöldsins en í hinum leikjunum voru níu mörk skoruð alls. Afturelding vann þægilegan heimasigur á Augnabliki, 4-0. Fyrirliði Aftureldingar, Hildur Karítas Gunnarsdóttir, var heldur betur á skotskónum en hún skoraði þrennu á tólf mínútna kafla í fyrri hálfleik.

Þá vann Víkingur þægilegan 0-5 sigur á botnliði KR. KR-ingar náðu að halda sjó framan af leik en Víkingar settu eitt mark á 44. mínútu þegar Sigdís Eva Bárðardóttir braut ísinn. Í seinni hálfleik brustu svo allar flóðgáttir.
Úrslitin þýða að Víkingskonur tylla sér í toppsæti deildarinnar, tveimur stigum á undan HK, en bæði lið hafa leikið sjö leiki í deildinni. Grindavík og Afturelding klóra sig sömuleiðis upp töfluna, en liðin voru jöfn að stigum með átta stig hvort í 5. og 6. sæti.