Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna voru sammála um að stjórnendur Íslandsbanka þyrftu að standa skil á gjörðum sínum eftir að ljóst varð að hann braut lög við sölu á hlut ríkisins í bankanum þegar þeir mættu í Pallborðið á Vísi í morgun.
Íslandsbanki samþykkti að greiða hátt í 1,2 milljarða króna sekt í sátt sem hann gerði við Seðlabankann vegna brota á lögum um markaði með fjármálagerninga og fjármálafyrirtæki sem hann framdi þegar hann annaðist sölu á hlutum ríkisins í mars í fyrra. Bankinn gaf Bankasýslu ríkisins meðal annars villandi upplýsingar.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði rannsókn fjármálaeftirlits Seðlabankans á málinu ítarlega og vandaða. Niðurstaðan væri „alger áfellisdómur“ yfir íslandsbanka, stjórn hans og stjórnendum.
„Það eru brotin lög, það eru brotnar reglur. Það er gengið fram af mikilli vanvirðingu fyrir verkefninu sem honum var treyst fyrir,“ sagði Katrín.

Blasi við hvað það þýði að standa skil á gjörðum sínum
Stjórnendur bankans og stjórn þyrftu að „standa skil“ á gjörðum sínum. Þess vegnar hafi Bankasýslan krafist hlutahafafundar sem haldinn verður á næstunni.
Forsætisráðherra sagði brot bankans stórmál sem hefðu margfeldisáhrif sem græfu undan öllu trausti í samfélaginu. Sérstaklega alvarlegt væri að bankinn hefði gefið Bankasýslunni villandi upplýsingar.
„Mér finnst blasa við hvað það þýðir,“ sagði Katrín spurð að því hvað fælist í því að stjórnendur bankans stæðu skil á gjörðum sínum.
Bjarni Benedtiksson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði áður sagt að taka yrði á því með „viðeigandi hætti“ ef lög voru brotin við framkvæmd sölunnar á bréfum ríkisins í Íslandsbanka. Hann teldi það rétta ákvörðun hjá Bankasýslunni að krefjast hluthafafundar.
Verði að axla ábyrgð á „óforsvaranlegum“ vinnubrögðum
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði engan hafa búist við þeirri mynd sem birtist í sáttinni sem Seðlabankinn birti í gær.
„Ég held að það sjái það hvert mannsbarn á Íslandi að þegar menn gera þessa hluti verði þeir að axla þá ábyrgð,“ sagði Sigurður Ingi.
Hann gæti ekki ímyndað sér að annað en að aðrir hluthafar í bankanum en ríkið teldur vinnubrögð bankans við söluna óforsvaranleg.

Ætlast væri til þess að þeir sem tækju við verkefnum sem þessum höguðu sér innan marka laga og reglna.
„Þegar þeir gera það ekki er komið fullkomið vantraust á viðkomandi aðila,“ sagði innviðaráðherra.
Frekari sala á ís þar til málið hefur verið gert upp
Hvað framhaldið varðaði sagði Bjarni að hann vildi ennþá losa ríkið út úr viðskiptabönkunum og draga úr ríkisumsvifum. Salan á hlutum ríkisins hafi heppnast vel og ljúka ætti sölunni þegar aðstæður leyfðu.
Katrín sagði hins vegar ekki hæt að ræða frekari sölu á hlutum ríkisins í bönkunum fyrr en útboðið á hlutunum í Íslandsbanka í fyrra yrði gert upp að fullu.
Sigurður Ingi talaði um að bankastjórnendur þyrftu að endurheimta traust áður en hægt væri að halda áfram sölu á hlutum ríkisins.