Innlent

Ekki hægt að svara því hvort stjórn­mála­menn hafi verið hleraðir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Vísir/Vilhelm

Dómsmálaráðherra segist ekki getað svarað fyrirspurn um mögulegar hleranir lögreglu á alþingismönnum eða öðrum stjórnmálamönnum, þar sem störf eða embætti manna séu ekki skráð í LÖKE.

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, lagði fram skriflega fyrirspurn þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um fjölda alþingismanna eða annarra stjórnmálamanna sem lögregla hefði fengið heimild til að hlera frá árinu 1944 og til dagsins í dag.

Vildi hann fá upplýsingarnar sundurliðaðar eftir árum og spurði einnig um fjölda annarra embættismanna sem hefðu verið hleraðir.

Svar dómsmálaráðherra var birt fyrir helgi en þar segir að í málaskrárkerfi lögreglu, þar sem haldið sé utan um tilteknar upplýsingar er varða rannsókn sakamála, sé ekki almennt skráð hvaða starfi eða embætti sá sem beittur er hlerunum gegni né hvaða flokki viðkomandi tilheyrir.

„Umbeðnar upplýsingar liggja því ekki fyrir. Með svari þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort heimilt væri að veita umbeðnar upplýsingar, lægju þær fyrir,“ segir í svörum ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×