Guðbjörg Jóna var reyndar nokkuð frá sínu besta og kom í mark á 11,92 sekúndum.
Íslandsmet hennar er 11,56 sekúndur og hún hafði hlaupið best á 11,70 sekúndum í ár.
Sá tími hefði dugað henni til að komast áfram í undanúrslitin en tvær síðustu sem komust upp úr hennar riðli hlupu á 11,73 og 11,75 sekúndum.
Guðbjörg endaði í fjórða sæti í sínum riðli en þrjár fyrstu konur í hverjum riðli komust áfram í undanúrslit og síðan fjórir hröðustu tímarnir eftir það.
Riðill Guðbjargar var hægari en hinir og því átti hún aldrei möguleika á því að vera með einn af fjórum hröðustu tímunum. Hún var því eftir á að hyggja í riðli sem gaf betri von um að komast áfram en náði ekki að nýta sér það til að ná einu af þremur efstu sætunum.
Viðbót: Riðill Guðbjargar var með meiri mótvind en hinir riðlarnir (-1,3) og það er ein af ástæðunum fyrir því að tímarnir voru slakari í honum.
Guðbjörg Jóna endaði í 24. sæti í undanrásunum af þrjátíu keppendum.