Innlent

Ölvaður maður áreitti listamann

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ölvaður maður áreitti listamann í Miðborginni í nótt. Honum var vísað á brott af lögreglunni.
Ölvaður maður áreitti listamann í Miðborginni í nótt. Honum var vísað á brott af lögreglunni. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt. Þó nokkrar tilkynningar bárust um slagsmál, þjófnað og fólk í annarlegu ástandi. Þá var fjöldi ökumanna sektaður vegna hraðaksturs og aðrir teknir vegna gruns um akstur undir áhrifum.

Í dagbók lögreglu segir að lögreglu hafi borist margar beiðnir vegna fólks í annarlegu ástandi. Þar á meðal í Laugarneshverfi þar sem eintsaklingur var að kasta múrsteinum í hús. Viðkomandi hafði brotið rúðu þegar lögregla kom á vettvang og var málið afgreitt á staðnum.

Þó nokkuð var um ölvað fólk í Miðborginni. Á einu ölhúsi í bænum óskuðu dyraverðir eftir aðstoð lögreglu vegna ofurölvaðs einstaklings sem var til vandræða. Þá barst tilkynning um ölvaðan einstakling sem var að áreita listamann í hverfi 101. Hinum ölvaða var vísað á brott af lögreglu.

Lögregla hafði einnig eftirlit með réttindum dyravarða en á einu ölhúsi voru tveir starfandi án gildra réttinda og var rekstraraðila gert að bæta úr því.

Slagsmál og grunsamlegir menn

Tilkynnt var um slagsmál í Laugarneshverfi og Árbænum sem lögreglan sinnti. Þá var tilkynnt um slagsmál á skemmtistað í Miðborginni sem sem reyndist vera kýtingur milli tveggja vina.

Vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið voru ökumenn stöðvaðir vegna hraðaksturs eða gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna. 

Þá barst lögreglunni tilkynning um hóp manna í bílakjallara í vesturbæ Kópavogs sem gengu á milli bifreiða og kíktu inn í þá. Lögreglan fór á vettvang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×