Níu hafa verið handteknir í tengslum við fjögur mál í tengslum við innflutning á kókaíni á síðustu tveimur vikum. Sex þeirra sæta gæsluvarðhaldi vegna málanna en hinir þrír ganga lausir með stöðu sakbornings. Um er að ræða Íslendinga og erlenda ríkisborgara á aldrinum 25 til 50 ára. Miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur málið til rannsóknar og hefur notið aðstoðar sérsveitar og tollgæslunnar.
Margrét Valdimarsdóttir, dósent í afbrotafræði við HÍ, ræddi málaflokkinn í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hún segir að sé afbrotatölfræði lögreglunnar skoðuð sé ljóst að fíkniefnamálum hefur fjölgað á síðustu árum.
Fjölgað eftir heimsfaraldur
„Og var að fjölga alveg þar til í Covid, þegar þeim snarfækkaði og svo hefur þeim fjölgað mikið eftir Covid. Þá einmitt getur maður spurt sig: Hvað er í gangi?“
Hægt sé að spyrja sig hvort fíkniefnaneysla á Íslandi sé að aukast, hvort hún sé mikil hér á landi í samanburði við aðrar borgir og þjóðir en einnig hvort að einfaldlega sé hægt að útskýra aukinn fjölda með því að lögreglan sé að verða færari í að rannsaka slík mál og stöðva innflutning fíkniefna.
„Af því að við heyrum auðvitað ekki af þeim málum þar sem innflutningurinn heppnast fyrir fíkniefnasalann. En ef við skoðum annarskonar mælingar eins skólpið á höfuðborgarsvæðinu, frárennslið, þá sjáum við að mælingar á því styðja þessa sömu sögu, það er að segja, fíkniefnaneysla hefur verið aukast að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu, töluvert, þá sérstaklega kókaínneysla og þá er amfetamínneysla líka mikil.“
Neyslan sé ekkert minni en í öðrum stórborgum í Evrópu. Mikil eftirspurn sé eftir því að komast í vímu á Íslandi.
Þetta eru áreiðanleg gögn, þessi skólpgögn?
„Já. Þetta eru nokkuð áreiðanleg gögn og sýna hversu mikil neyslan er og hversu sterk efnin eru sem eru í notkun.“