Orri Steinn skoraði þrjú mörk í 6-3 sigri FC Kaupmannahöfn á Íslandsmeisturum Breiðabliks og var einnig með eina stoðsendingu á einn liðsfélaga sinn.
Orri sló með þessu markamet Rúnars Más Sigurjónssonar frá árinu 2016. Enginn Íslendingur hefur skorað fleiri mörk í leik á móti íslensku liði í Evrópukeppni.
Rúnar átti metið síðan hann skoraði bæði mörk svissneska félagsins Grasshopper í 2-1 sigri á KR í undankeppni Evrópudeildarinnar 21. júlí 2016. Rúnar kom Grasshopper í 1-0 á 44. mínútu og skoraði síðan sigurmarkið á 68. mínútu eftir að KR jafnaði metin í upphafi seinni hálfleiks.
Jóhannes Eðvaldsson var fyrstur Íslendinga til að skora á móti íslensku liði í Evrópukeppni þegar hann skoraði fyrir Celtic gegn Val. Jóhannes skoraði þá fyrsta mark Celtic í 7-0 sigri á Celtic Park í Evrópukeppni bikarhafa 1. október 1975.
Arnór Guðjohnsen skoraði fyir sænska liðið Örebro í 3-1 sigri á Keflavík í Intertoto keppninni en leikurinn fór fram í Svíþjóð 23. júní 1996. Arnór skoraði fyrsta mark sænska liðsins í leiknum á 23. mínútu.
Viðar Örn Kjartansson skoraði síðan fyrir ísraelska félagið Maccabi Tel Aviv 3-1 sigri á KR í undankeppni Evrópudeildarinnar 13. júlí 2017. Viðar skoraði annað mark ísraelska liðsins og kom liðinu yfir á 79. mínútu eftir að KR-ingar höfðu komist í 1-0.