Í umfjöllun New York Times segir að forsetinn fyrrverandi hafi ekki gefið frá sér neina yfirlýsingu að fyrirtöku lokinni. Hann hyggst ræða við fréttamenn á leiðinni frá borginni og aftur til síns heima í Flórída en síðast þegar hann var ákærður í New York hélt hann mikla ræðu eftir að hann gekk út úr dómsal.
Eins og fram hefur komið hefur Trump verið ákærður fyrir að hafa reynt að hnekkja úrslitum í bandarísku forsetakosningunum árið 2020. Hann stóð frammi fyrir dómara í kvöld og lýsti yfir sakleysi í málinu.
Næsta fyrirtaka í málinu verður þann 28. ágúst næstkomandi. Búist er við því að lögmenn Trump muni gera sitt besta til að tefja málaferlin, að því er fram kemur í umfjöllun New York Times.
Trump er nú í framboði til forseta og rær nú öllum árum að því að tryggja sér útnefningu Repúblikanaflokksins. Þar á Trump töluvert forskot á mótherja sína og segir í umfjöllun bandaríska miðilsins að ákæruvaldið reyni nú eftir sem fremsta megni að tryggja að réttarhöld yfir forsetanum fyrrverandi fari fram eins fljótt og auðið er. Aðstoðarmenn Trump tali leynt og ljóst um að hann muni stöðva málaferlin verði hann kosinn forseti á næsta ári.