Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að maðurinn hafi enn ekki fundist.
Maðurinn stakk annan á Laugaveginum í miðborg Reykjavíkur. Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á gjörgæsludeild Landspítalans eftir árásina. Eiríkur segir hann hafa náð sér.
Spurður hvað það þýðir segir Eiríkur að málið verði rannsakað áfram. „Við rannsökum málið eins og við getum. En það er hugsanlegt að það upplýsist ekki. En við gerum það sem við getum.“
Er það algengt að árásarmenn finnist ekki?
„Nei. Það er algjör undantekning að það gerist þannig. Ég man ekki eftir öðru slíku máli í seinni tíð.“
Er árásarmaðurinn talinn hættulegur?
„Nei. Við höfum þær upplýsingar ekki undir höndum hjá okkur.“