Innlent

Reyndi að flýja eftir líkams­á­rás

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Ungmenni fundust inni á tveimur skemmtistöðum í nótt.
Ungmenni fundust inni á tveimur skemmtistöðum í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla hafði uppi á gerendum líkamsárásar í nótt sem tilkynnt var um í miðborg Reykjavíkur en einn þeirra reyndi að flýja vettvang. Voru þeir handteknir og fluttir á lögreglustöðina á Hverfisgötu. Einn var vistaður í fangaklefa en tveimur sleppt að lokinni upplýsingatöku.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina.

Í miðborginni fann lögregla manneskju sem var til ama og óþurftar í og við fyrirtæki. Var henni gefið tækifæri til þess að láta af hegðun sinni en lét ekki segjast. Eftir handtöku kom í ljós að manneskjan var með fíkniefni á sér og var vistuð í klefa.

Við vínhúsaeftirlit kom í ljós að einn skemmtistaður í miðborginni var ekki með leyfi fyrir fjórum dyravörðum. Þar voru einnig ungmenni undir tvítugu inni á staðnum. Var rætt við eigandann og skýrsla rituð um málið.

Svaf við brotna rúðu hótels

Á öðrum skemmtistað voru ungmenni undir átján ára inni. Fyrir utan þann stað brutust út áflog en var leyst þegar lögregla mætti á staðinn.

Þá var tilkynnt um manneskju sem svaf ölvunarsvefni á hóteli við brotna rúðu. Voru upplýsingar fengnar frá manneskjunni og henni sleppt að því loknu.

Nokkrir stútar voru teknir sem og ökumenn sem óku of hratt. Einn þeirra var ekki með gild ökuréttindi.

Í Kópavogi var tilkynnt um átök þar sem hugsanlega væri einhver með vopn á vettvangi. Árásaraðilar voru farnir af staðnum þegar lögregla kom en fundust þeir skömmu seinna og voru vistaðir í fangaklefa. Málið er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×