Fótbolti

Foster leggur hanskana á hilluna eftir erfiða byrjun á tíma­bilinu

Aron Guðmundsson skrifar
Foster í leik með Wrexham
Foster í leik með Wrexham Vísir/Getty

Ben Foster, mark­vörður enska D-deildar liðsins Wrex­ham, hefur lagt mark­manns­hanskana á hilluna. Frá þessu greinir hann í yfir­lýsingu en að­eins nokkrar um­ferð eru liðnar af ensku D-deildinni þetta tíma­bilið.

Foster tók hanskana af hillunni á seinni hluta síðasta tíma­bilsins og átti stóran þátt í því að binda enda á veru Wrex­ham, sem er í eigu Hollywood stjarnanna Ryan Reynolds og Rob McEl­henn­ey, í ensku utan­deildinni.

Hann á­kvað síðan að taka slaginn með liðinu í ensku D-deildinni á yfir­standandi tíma­bili en hefur nú á­kveðið að kalla þetta gott.

„Í fullri hrein­skilni hefur frammi­staða mín hingað til á tíma­bilinu ekki verið á því gæða­stigi sem ég ætlast til af sjálfum mér og því finnst mér rétti tíma­punkturinn núna til þess að leggja hanskana á hilluna.

Með þessari á­kvörðun hef ég ekki að­eins til hlið­sjónar það sem er best fyrir mig, heldur einnig hvað sé best fyrir fé­lagið. Nú getur það vegið og metið kostina í stöðunni áður en fé­lags­skipta­glugginn lokar.“

Wrex­ham er sem stendur í 15.sæti ensku D-deildarinnar og hefur fengið flest mörk á sig af liðum deildarinnar þegar fjórar um­ferðir hafa verið leiknar, alls 13 mörk.

Hinn 40 ára gamli Foster leggur nú hanskana á hilluna í annað sinn og á hann að baki flottan feril með liðum á borð við Manchester United, Stoke City, Wat­ford, Birming­ham og West Bromwich Al­bion. Að auki lék hann átta leiki fyrir lands­lið Eng­lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×