Kjötsúpuhátíðin á Hvolsvelli er ein af þessum árlegu bæjarhátíðum landsins. Hátíðin hófst á fimmtudagskvöld og lýkur í hádeginu á morgun með sýningu leikhópsins Lottu. Í gærkvöldi var súpuröltþar sem íbúar og gestir gátu gengið á milli nokkurra húsa og fengið sér kjötsúpu. Og í gær var líka nýr leikskóli vígður á Hvolsvelli, sem hefur fengið nafnið Aldan.
Anton Kári Halldórsson er sveitarstjóri Rangárþings eystra.
„Svo eru dansleikir og hátíðarhöld, tívolí, tónleikar, verðlaunaafhendingar og nefndu það bara. Kjötsúpuhátíðin byrjaði fyrir hartnær tuttugu árum, sem uppskeruhátíð í lok sumars og fólki fagnað með því að bjóða því upp á kjötsúpu,” segir Anton Kári.
Í dag milli 13:00 og 16:00 býður Sláturfélag Suðurlands öllum upp á ókeypis kjötsúpu á meðan birgðir endast á miðbæjartúninu á Hvolsvelli.
En hvað er það við kjötsúpuna, sem er svona heillandi?
„Ég held að það sé bara besti matur, sem þú getur fengið. Orkuríkasti og næringarríkasti og já, við getum ekki hugsað okkur neitt betra.”

Og þið borðið mikið af kjötsúpu í þessu sveitarfélagi eða hvað?
„ Ætli það sé ekki tvisvar í viku, nei, nei, en hún er vel metin hér”, segir Anton Kári.
Hann segir alla velkomna á Hvolsvöll um helgina.
„Já, já, allir velkomnir, nóg pláss fyrir alla og bara endilega að kynna sér dagskrána, þetta verður glæsileg hátíð.”