Bland, sem hefur um árabil verið eitt helsta sölutorg fyrir notað og nýtt á Íslandi, heldur áfram sinni vegferð með nýjum eigendum að því er segir í tilkynningu.
„Bland býr yfir stórum og virkum notendahóp sem nýtir sér sölutorgið þannig að notaðir hlutir fá framhaldslíf,“ segir Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, í tilkynningu.
„Það er eitthvað sem okkur hjá Sýn hugnast vel og fellur vel að okkar sjálfbærnistefnu. Við erum jafnframt sannfærð um að hugmyndafræðina á bak við Bland sé hægt að tengja vel við okkar vefmiðla, eins og Vísi, og stórbæta upplifun notenda af sölutorgi Bland.“
Kaupverðið er ekki gefið upp í tilkynningunni.
Vefsíðan Barnaland.is var sett á laggirnar árið 2000. Upphaflega var um að ræða upplýsingavef fyrir foreldra um allt og ekkert sem varðaði barneignir, börn og uppeldi þeirra. Í framhaldinu þróaðist vefurinn út í að verða bæði sölutorg fyrir hina ýmsu notuðu hluti og um leið umræðurvefur.
Nafninu varð breytt í Bland.is árið 2011 með eigendaskiptum og hefur heitið Bland.is síðan þá.
Sýn keypti fyrr á árinu allt hlutafé Eignarhaldsfélagsins Njálu, móðurfélags upplýsingatæknifyrirtækisins Já, sem rekur meðal annars vefsíðuna og appið ja.is ásamt því að veita upplýsingar í símanúmerinu 1818.
Vísir er í eigu Sýnar.