Frá þessu er greint í miðlum á borð við Daily Mail, Mirror og Express. Þar segir að myndbandsupptaka af slagsmálunum sýni miðvörð og fyrirliði Newcastle ásamt bróðir og vini sínum í slagsmálum við sex til átta manns.
Lögregla borgarinnar rannsakar nú málið sem átti sér stað aðfaranótt sunnudagsins 20. ágúst. Leikmenn Newcastle fengu tveggja daga frí eftir 1-0 tap gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni og fór hinn 29 ára gamli Lascelles út að skemmta sér á laugardagskvöldinu.
Jamaal Lascelles was 'attacked' in a violent brawl following Newcastle's 1-0 defeat to Man City pic.twitter.com/TDLVX48ctA
— Mail Sport (@MailSport) August 29, 2023
Þremenningarnir höfðu yfirgefið skemmtistað í borginni þegar ónefndur maður ku hafa gefið bróðurnum olnbogaskot í hálsinn algjörlega að ástæðulausu. Vitni segir að fyrirliðinn hafi ýtt manninum í burtu, síðan hafi flösku af vodka verið kastað í áttina að Lascelles en hún flaug rétt framhjá höfði hans. Í kjölfarið réðust mennirnir að honum og kýldu hann úr öllum áttum.
Það var þarna sem vitni segjast hafa heyrt árásarmennina hafa öskrað að þeir ætluðu að skjóta Lascelles. Sömuleiðis segja vitni að Lascelles hafi aðeins barist á móti í sjálfsvörn og hafi reynt að verja 19 ára gamlan bróður sinn.
Árásarmennirnir voru á bak og burt þegar lögregla og sjúkraliðar komu á svæðið. Bróðirinn hafði verið laminn í andlitið en vinur þeirra lá meðvitundarlaus í jörðinni, óttuðust vitni að hann væri dáinn þar sem hann hafði legið hreyfingarlaus í um stundarfjórðung.
Jamaal Lascelles hurt after sickening attack outside nightclub with friend left unconscious https://t.co/32hMiZC2UU
— talkSPORT (@talkSPORT) August 29, 2023
Samkvæmt frétt Daily Mail hefur lögreglan talað við vininn sem lá meðvitundarlaus í jörðinni en enn hefur enginn verið handtekinn. Lögreglan svaraði ekki fyrirspurnum Daily Mail áður en greinin var birt. Þá hefur Newcastle United sagt að það viti af málinu og hafi séð myndbandið.
Lascelles gekk fyrst í raðir Newcastle árið 2014 á láni en var keyptur ári síðar. Hann hefur spilað 225 leiki fyrir félagið en kom lítið við sögu á síðustu leiktíð og hefur ekki enn komið sögu á yfirstandandi leiktíð.