Innherji

Sænsk­ur vís­i­sjóð­ur tek­ur þátt í ríflega 300 millj­óna fjár­mögn­un Snerp­u Pow­er

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Aftari röð frá vinstri til hægri: Hekla Arnardóttir (Crowberry Capital), Sara Wimmercranz (BackingMinds), Jenny Ruth Hrafnsdóttir (Crowberry Capital), Helga Valfells (Crowberry Capital). Fremri röð : Susanne Najafi (BackingMinds), Eyrún Linnet (Snerpa Power), Íris Baldursdóttir (Snerpa Power)
Aftari röð frá vinstri til hægri: Hekla Arnardóttir (Crowberry Capital), Sara Wimmercranz (BackingMinds), Jenny Ruth Hrafnsdóttir (Crowberry Capital), Helga Valfells (Crowberry Capital). Fremri röð : Susanne Najafi (BackingMinds), Eyrún Linnet (Snerpa Power), Íris Baldursdóttir (Snerpa Power) Aðsend

Sprotafyrirtækið Snerpa Power sótti 2,2 milljónir evra, eða sem nemur 314 milljónum króna, í sinni fyrstu fjármögnunarlotu sem lauk dögunum. Vísisjóðirnir Crowberry Capital og hinn sænski BackingMinds leiddu fjármögnunina.

„Við höfum í þó nokkurn tíma skoðað orkutengdar fjárfestingar. Þegar við hittum stofnendur Snerpu Power, Írisi Baldursdóttur og Eyrúnu Linnet, heilluðumst við samstundis af einstakri innsýn þeirra og yfir 40 ára samanlagðri reynslu úr geiranum. Þess vegna var það auðveld ákvörðun að styðja tvo sterka leiðtoga í að knýja fram græn umskipti innan orkugeirans,“ segir Susanne Najafi, stofnandi og meðeigandi BackingMinds.

Hjálpa stórnotendum að taka aukinn þátt á raforkumarkaði

Snerpa Power gerir stórnotendum rafmagns, svo semálverum, gagnaverum og öðrum iðnaði sem notar mikið rafmagn, kleift að taka aukinn þátt á raforkumarkaði til að jafna sveiflur, sem leiðir til nýrra tekjustrauma, bættrar samkeppnishæfni, lægri raforkukostnað og aukins stöðugleika fyrir raforkukerfið allt, segir í tilkynningu.

Raforkumarkaðir fyrir m.a. jöfnunarorku um allan heim velti alls um 70 milljörðum evra árið 2020. Áætlað er að þörfin fyrir aukinn sveigjanleika muni tífaldast á þessum áratug vegna orkuskipta og endurnýjanlegra orkugjafa sem ryðja sér til rúms.

Hugbúnaðarlausn Snerpu Power gerir fyrirtækjum kleift að nýta rauntímagögn til að bæta og sjálfvirknivæða ákvarðanatöku sem varðar raforkunotkun og áætlanagerð, raforkusamninga og sölu reglunarafls inn á net. Hugbúnaðurinn er beintengdur raforkumarkaði og í gegnum hann geta iðnfyrirtæki með öruggum og arðbærum hætti aukið stöðugleika raforkukerfisins og bætt nýtni þess.

Vantar lausnir til að leysa áskoranir við orkuskipti

„Stórnotendur eru í auknum mæli að forgangsraða orkunýtni og sjálfbærni í orkunotkun til að tryggja samkeppnishæfni í orkukerfi sem er í miðri umbreytingu. Metnaðarfull iðnfyrirtæki stefna á að vera hluti af kolefnishlutlausu orkukerfi og orkukerfið kallar eftir þátttöku þessara notenda. Hins vegar vantar lausnir til að leysa áskoranir orkuskiptanna og gera það aðlaðandi fyrir iðnaðinn að taka þátt,” segir Íris, framkvæmdastjóri Snerpu Power.

Íris starfaði í 15 ár hjá Landsneti í ýmsum stjórnunarstöðum, lengst af sem framkvæmdastjóri Kerfisstjórnunarsviðs.

Hún hóf ferilinn hjá ABB í Svíþjóð við að afhenda háspennubúnað inn á alþjóðamarkað. Síðustu 4 árin hefur hún starfað sem ráðgjafi hjá ENTSO-E (Samtök evrópskra flutningsfyrirtækja rafmagns) með það hlutverk að leiða m.a. stefnumörkun kerfisstjóra í Evrópu fyrir hönd samtakanna.

Íris er rafmagnsverkfræðingur með meistaragráðu frá KTH í Svíþjóð.

Hinn stofnandinn Snerpu Power er Eyrun sem er tæknistjóri félagsins. Eyrún starfaði í 12 ár hjá ISAL í Straumsvík, m.a. sem leiðtogi kerskála en lengst af sem leiðtogi rafveitu. Þar hefur hún leitt sjálfvirknivæðingu rekstrar og viðhalds fyrir allan rafbúnað sem og varnar- og stjórnbúnað kerskála. Hún býr yfir mikilli þekkingu á álagsstýringu fyrir iðnað og innleiðingu sjálfvirkniverkefna.

Eyrún er rafmagnsverkfræðingur með meistaragráðu frá DTU í Danmörku.

„Ég var svo heppin að frétta af áformum Írisar og Eyrúnar fyrir stofnun Snerpa Power,” segir Jenny Ruth Hrafnsdottir, stofnandi og meðeigandi Crowberry Capital. „Ég hvatti þær hiklaust til að einbeita sér að fullu að því að koma Snerpa Power á fót, vitandi að lausnin byggir á langri og yfirgrípandi reynslu þeirra úr raforkugeiranum.“

Sænski konungurinn og Dagens Industri

Sænski vísisjóðurinn BackingMinds II er 50 milljónir evra að stærð, jafnvirði 7,1 milljarður króna. 60 prósent af sjóðnum fer í nýfjárfestingar og 40 prósent í fylgja fjárfestingum eftir. Stærð einstakra fjárfestinga þegar um er að ræða fyrstu fjárfestingu er 0,5 til 3 milljónir evra, jafnvirði 71-428 milljónir króna.

Sjóðurinn fjárfestir á Norðurlöndunum og í Evrópu að undanskildu Bretlandi. Hann mun fjárfesta í um 20 sprotum á líftíma sínum.

Stofnendurnir Backing Minds eru Sara Wimmercanz og Susanne Najafi.

Dagens Industri hefur útnefnt Wimmecranz sem áhrifamesta tæknifjárfestir Svíþjóðar. Hún stofnaði Footway, stærsta skósala Norðurlöndunum og er skráð á hlutabréfamarkað. Hún hefur sömuleiðis tekið þátt sem fjárfestir í sænsku útgáfunni af Dragon‘s Den sjónvarpsþáttunum.

Carl Gustaf XVI hefur veitt Najafi verðalun sem brautryðjandi ársins. Hún stofnaði snyrtivöruverslunina Eleven sem starfrækt er á Norðurlöndunum. Félagið var selt árið 2015.

Crowberry II er 90 milljónir evra að stærð, jafnvirði 12,8 milljarðar króna. 40 prósent af sjóðnum er ráðstafað í nýfjárfestingar og 60 prósent í að fylgja fjárfestingum eftir. Sjóðurinn fjárfestir á Norðurlöndunum. Hann stefnir á að fjárfesta í allt að 30 fyrirtækjum á líftíma sjóðsins. Í fyrstu fjárfestingu leggur hann til 0,5-2 milljónir evra.

Stofnendur Cowberry Capital eru Helga Valfells, Hekla Arnardóttir og fyrrnefnd Jenny Ruth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×