„Ráðherra byggir ákvörðun sína á á faglegum og málefnalegum forsendum,“ segir Katrín í samtali við Vísi.„Hún gerir það skýrt að sjónarmið dýravelferðar séu tekin til greina sem er orðið löngu tímabært.“
Spurð um hvort ákvörðunin hafi bjargað ríkisstjórnarsamstarfinu svarar Katrín neitandi, og bætir við að viðfangsefni stjórnarinnar séu talsvert stærri.
„Þó að það þessi mál séu umdeild, og skiptar skoðanir á þeim meðal ríkisstjórnarflokkanna, þá heyrði maður á flokksráðsfundi okkar og hjá Sjálfstæðisflokknum að það er einlægur vilji til að halda áfram þessu samstarfi.“ segir Katrín.
„Látum ekki stilla okkur upp við vegg og hóta okkur“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ákvörðun Svandísar varðandi áframhaldandi hvalveiðar vera ágætlega rökstudda. Sjálfstæðismenn hafi gert athugasemdir varðandi það hvernig staðið hafi verið að fyrri ákvörðun Svandísar en nú sé búið að taka aðra ákvörðun.
Í samtali við Vísi var Barni spurður út í mögulega sniðgöngu Hollywood-stjarna á Íslandi verði hvalveiðar ekki bannaðar. Hann sagði slíkt ekki eiga að hafa áhrif á ákvörðun sem þessa.
„Ég er þeirrar skoðunar að við tökum okkar eigin ákvarðanir. Við látum ekki stilla okkur upp við vegg og hóta okkur,“ segir Bjarni sem bendir á að hvalveiðar eigi sér langa sögu hér á landi. Því finnst honum mikilvægt að þjóðin taki ákvörðun um þetta sjálf.
Bjarni talaði á svipuðum nótum varðandi það hvort málið hafi ógnað ríkisstjórninni. Hann taldi svo ekki vera. Hins vegar hafi málið verið alvarlegt engu að síður.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra tjáði sig einnig um ákvörðunina. Hann segist fagna ákvörðuninni og er ánægður að með henni sé mikilli óvissu eytt.