Þetta kemur fram í árskýrslu sóttvarna en RÚV greindi fyrst frá.
Í árskýrslunni segir að sjúkdómurinn Creutzfeldt-Jakobs, skammstafaður CJS, sé í flokki sem nefnist transmissible spongiform encephalopathy.
Sjúkdómurinn er mjög sjaldgæfur, en nýgengi er talið um 0,5–1,5 á hverja 1.000.000 einstaklinga á ári. Langflest tilfelli koma upp tilviljanakennt án þekktrar smitleiðar.
„CJS veldur hraðvaxandi heilabilun og dregur sjúklinga fljótt til dauða eftir að einkenni koma fram, eða á nokkrum mánuðum. Engin þekkt meðferð er til sem hægir á eða stöðvar sjúkdómsganginn,“ segir í skýrslunni.
Fyrir andlátið á síðasta ári höfðu tveir einstaklingar látist af völdum sjúkdómsins. Það var árin 2006 og 2020.
Í frétt Ríkisútvarpsins er haft eftir Önnu Margréti Halldórsdóttur yfirlækni sóttvarnarsviðs hjá embætti landlæknis sem segir einkenni oft lengi að koma fram. Meðal einkenna séu minnkandi vitræn geta og hreyfitruflanir.
„Eftir að einkenni koma fram á annað borð koma þau fram með hraðvaxandi heilabilun, með stjórnleysi vöðva og svo framvegis,“ er haft eftir Önnu Margréti. Engin meðferð sé til við sjúkdómnum heldur sé veitt stuðningsmeðferð og líknandi meðferð.