Fréttastofa náði sambandi við slökkviliðið í morgun en var tjáð að verið væri að aðstoða lögreglu í ákveðnu verkefni og benti á hana. Ekki hefur náðst samband við lögreglu.

Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf., sagði fyrir helgi að haldið yrði til veiða um leið og veður leyfði en eins og kunnugt er heimilaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra veiðarnar í síðustu viku.
Paul Watson, sem hefur barist gegn hvalveiðum í áratugi, hefur hins vegar á sama tíma lýst því yfir að hann muni gera allt í sínu valdi til að stöðva veiðarnar.

Uppfært:
Slökkviliðið og lögregla eru farin af vettvangi en mótmælendurnir enn uppi í möstrunum.
Fréttastofa hefur undir höndum yfirlýsingu sem virðist vera skrifuð af öðrum mótmælandanum. Samkvæmt sjónarvottum tók lögregla símann af honum þegar reynt var að ná honum niður.
„Hinn 4. september 2023 kleif Anahita Babaei í hreiður mastursins á Hval 8 í friðsamlegum mótmælum til að koma í veg fyrir dráp á dýri í útrýmingarhættu; langreyð,“ segir í yfirlýsingunni en rétt er að geta þess að Babaei virðist vera í Hval 9.
Þá segir að veiðarnar sé brot á bæði íslenskum og alþjóðlegum lögum. Vísað er til þeirrar niðurstöðu sérfræðinefndar að ekki sé hægt að standa mannúðlega að veiðunum og til þess að vinnuhópurinn sem var að störfum í sumar hafi ekki horft til niðurstöðu sérfræðingahópsins.
Þær niðurstöður standi því óhaggaðar.
„Nærri 600 þúsund einstaklingar um allan heim hafa undirritað áskorun þar sem skorað er á Ísland að binda enda á hvalveiðar og yfir 80 einstaklingar í kvikmyndaiðnaðinum hafa heitið því að starfa ekki á Íslandi ef veiðarnar halda áfram,“ segir einnig.
Heimurinn glími nú við loftslagsvanda og hvalirnir séu þáttur í því að mannkynið lifi af. Engar skynsamlegar ástæður liggi því til grundvallar að halda veiðunum áfram. Veiðar stundaðar í ágóðaskyni hafi stuðlað að því að tegundir séu nú í útrýmingarhættu.
Babaei segir ákvörðun matvælaráðherra hryggilega og að ekkert annað sé í stöðunni en að grípa til þessara úrræða.
