Fótbolti

Gala­tasaray sækir leik­menn sem Totten­ham hefur ekki not fyrir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Davinson Sánchez Mina er á leið til Tyrklands.
Davinson Sánchez Mina er á leið til Tyrklands. EPA-EFE/Vince Mignott

Þó félagaskiptaglugginn á Englandi sé lokaður þá er hann enn opinn í Tyrklandi og það hefur tyrkneska knattspyrnuliðið Galatasaray nýtt sér til hins ítrasta. Í dag sótti liðið tvo leikmenn sem eiga ekki upp á pallborðið hjá Ange Postecoglou, þjálfara Tottenham Hotspur.

Það er þekkt stærð að stærstu lið Tyrklands sæki leikmenn sem eru úti í kuldanum hjá stærstu liðum Englands eða þá komnir rétt yfir hæðina. 

Í sumar hefur Galatasaray fengið tvo leikmenn frá Lundúnum, Wilf Zaha kom frá Crystal Palace á frjálsri sölu og Hakim Ziyech kom á láni frá Chelsea. Bráðum hefur Galatasaray sótt fjóra leikmenn frá Lundúnum en tveir leikmenn Tottenham Hotspur eru nú á leið þangað.

Tyrkneska félagið er að kaupa miðvörðinn Davinson Sánchez Mina fyrir tíu til fimmtán milljónir evra ef kaupaukar eru taldir með. Hann skrifar undir samning til ársins 2027. Þessi 27 ára gamli varnarmaður hefur á mála hjá Tottenham frá árinu 2017 en hefur nú ákveðið að færa sig um set. Hann á að baki 54 A-landsleiki fyrir Kólumbíu.

Franski miðjumaðurinn Tanguy Ndombélé mun fylgja Davinson Sánchez til Galatasaray en hann kemur á láni út tímabilið. Ekki er vitað hversu mikið Galatasaray borgar fyrir að fá Ndombélé á láni.

Hinn 26 ára gamli miðjumaður gekk í raðir Tottenham árið 2019 en hefur áður verið lánaður til Lyon í heimalandinu og Napoli á Ítalíu. Hann á að baki 7 A-landsleiki fyrir Frakkland.

Þá hefur verið opinberað að Nicolas Pépé, vængmaður Arsenal, sé á leiðinni til Beşiktaş sem er einnig Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×