Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ segir nýtt fjárlagafrumvarp tíðindalítið og gefa lítið inn í yfirvofandi kjaraviðræður.
„Það er ekkert í þessu sem ríkisstjórnin er að boða til að lækka verðbólgu,“ segir Finnbjörn um nýtt fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra. Frumvarpið var kynnt í gær og fara fram umræður um það á þingi á morgun.
Finnbjörn segir of lítið gert fyrir heimilin í frumvarpinu og nefnir í því samhengi að litla hækkun sé að finna á barnabótum í frumvarpinu, og ekkert gefið í húsnæðis- eða vaxtabætur.
Finnbjörn bendir á að það liggi fyrir að á næsta ári muni lán margra heimila falla af föstum vöxtum og að ASÍ hefði viljað sjá skýrari viðbrögð við því.
„Ef það eru engar ráðstafanir fyrir það fólk, mun fara illa,“ segir Finnbjörn en hann var í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hann segir jákvætt, fyrir kjarasamningsviðræðurnar sem framundan eru, að í frumvarpinu sé verið að veita stofnlán til þúsund íbúða.
„Það veitir ekki af því húsnæðismarkaðurinn er alveg í rusli hérna.“
Finnbjörn segir slíkar aðgerðir tala inn í yfirvofandi kjaraviðræður en fjármálaráðherra hefur sagt að hann vilji sjá gerða langtímasamninga á markaði. Finnbjörn segir þó þessi stofnlán í raun það eina í frumvarpinu sem tali til nýrra kjarasamninga.
„Það er ekki verið að létta undir í neinum kjaraviðræðum með þessum frumvarpi,“ segir Finnbjörn og að það gæti komið til hörku í viðræðunum.
„En við vitum alveg hvert við viljum fara í því. Við viljum auka kaupmátt fólks í landinu. Bara eins og fyrirtækin eru ekki tilbúin til þess að gefa eftir, þá gefum við ekkert eftir í þessum efnum.“