Ásgeir fór yfir stöðu lántakenda í Reykjavík síðdegis í dag en fjallað var um það í vikunni að greiðslubyrði heimilanna hafi þyngst þrátt fyrir töluverðar stýrivaxtahækkanir síðustu mánuði. Þá hefur seðlabankastjóri hvatt lántakendur til að skoða lánsmöguleika, mögulega blanda lánum og fara í eitthvað verðtryggt. Fyrir nokkrum misserum ráðlagði hann fólki að forðast verðtryggð lán, en Ásgeir segir forsendur breytast hratt í mikilli verðbólgu.
Hann telur horfurnar góðar en segir að enn sé þörf á töluverðu aðhaldi.
„Verðbólga hefur verið mjög þrálát, enda er gríðarlegur þrýstingur til staðar. Það sem að skiptir kannski máli er að hagkerfið er í þokkalegu jafnvægi. Ef við lítum til dæmis á utanríkisviðskiptin, það er ekki viðskiptahalli. Við erum að halda fjármálakerfinu í skefjum. Við sjáum merki um það að það er verið að draga úr útlánum. Miðað við það sem er í gangi þá var sjö eða átta prósent hagvöxtur á síðasta ári, gríðarlegur uppgangur á mörgum sviðum, gríðarleg aukning í eftirspurn.“
Ásgeir telur stýrivaxtahækkanirnar virka vel og tekur aukinn sparnað almennings sem dæmi. Innlánsvextir hafi enda hækkað töluvert.
„Fólk er að leggja peningana sína í bankann. Við sjáum þegar áhrif á einkaneysluna. Þannig að beiting peningastefnunnar er að ganga mjög vel en hún er sársaukafull. Og það sem við erum að eiga við – aðrar þjóðir í Evrópu eru til dæmis ekki með álíka hagvöxt og við. Margar þjóðir eru í raun með hálfgerðan samdrátt. Það er bara mikill uppgangur hjá okkur.“
Er uppgangurinn að vinna gegn okkur?
„Gegn og ekki gegn, já. Það hefur náttúrulega áhrif á verðbólguna og svo náttúrulega eru hlutir – síðustu kjarasamningar. Íslenskir launþegar eru þeir eini í Evrópu sem hafa ekki fengið lægri kaupmátt. Á síðasta ári gekk mjög svipuð verðbólga yfir alla Evrópu, lækkaði kaupmátt heimilanna þar en gerði það ekki hér. Síðustu kjarasamningar voru tiltölulega háir, kannski níu eða tíu prósent launahækkanir. Þannig að það munar náttúrulega gríðarlega mikið líka,“ segir Ásgeir.
Hér er aðeins stiklað á stóru en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að neðan.