„Þetta er að sjálfsögðu léttir. Þessu fylgir að sumu leyti líka skrítin tilfinning. Þetta er spennufall, að sumu leyti smá tómleiki. Manni finnst eins og þetta ættu að vera einhverskonar endalok en eftir situr þetta allt saman í manni einhvern veginn,“ segir Ragnhildur í samtali við Vísi.
Hún tekur fram að hún fagni niðurstöðu Landsréttar. Þetta hafi verið það sem hún vonaðist eftir, þó hún hafi samt alltaf líka óttast það versta.
„Ég vona að ég geti sett ákveðinn punkt fyrir aftan þetta núna. Það eru fimm ár síðan ég kærði þetta og þetta er búið að vera rosalega langur tími, með rosalega mikilli baráttu,“ segir Ragnhildur.
Hún segist vera eftir sig á þessari stundu. Dagarnir áður en dómur hafi verið kveðinn upp hafi verið sér erfiðir.
„Ég hef aðallega átt erfitt með að sofa, svona þegar maður veit að þessi dómur er að koma. En ég vona að ég muni geta lokað á það og haldið áfram og að ég þurfi ekki að velta mér endalaust upp úr þessu eisn og þetta er búið að vera svolítið undanfarin ár,“ segir Ragnhildur.
„Ég bjóst einhvern veginn við því að maður myndi hrópa húrra og að allt yrði frábært. Svo er allt í einu raunveruleikinn bara smá öðruvísi. Þannig að maður er kannski bara svolítið eftir sig. En nú ætla ég bara að njóta með fjölskyldunni og vona að þetta setji ákveðinn punkt í þetta fyrir mig.“