Handbolti

„Leikir sem við verðum að vinna og ætlum okkur að gera það“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Landsliðskonan Díana Dögg Magnúsdóttir er klár í slaginn fyrir leik kvöldsins.
Landsliðskonan Díana Dögg Magnúsdóttir er klár í slaginn fyrir leik kvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Landsliðkonana Díana Dögg Magnúsdóttir kveðst spennt fyrir komandi verkefni með íslenska landsliðinu þar sem liðið mætir Lúxemborg og Færeyjum í undankeppni EM. Hún segir það alltaf gott að koma heim og hitta stelpurnar í landsliðinu.

„Það er alltaf bara gott. Það er léttleiki í þessu og bara það að heyra íslensku og að vera með stelpunum er alltaf gaman,“ sagði Díana, sem leikur með þýska liðinu BSV Sachsen Zwickau.

Hún segir að leikirnir gegn Lúxemborg og Færeyjum séu skyldisigrar, en fyrri leikur Íslands í glugganum er gegn Lúxemborg í kvöld.

„Já að sjálfsögðu. Við erum stóra liðið í þessum leikjum og eigum bara að líta á okkur sem „favourites“ og eigum bara að klára þessa leiki almennilega.“

Þá segir Díana að þrátt fyrir axlarmeiðsli í vor sé skrokkurinn góður og að hún sé klár í slaginn fyrir leikina.

„Staðan er bara góð. Ég get skotið á markið og er til í að fórna mér á alla bolta. Ég treysti bara líkamanum og verð ekkert verri á eftir þannig þá er þetta bara allt í góðu.“

Hún segir þessa leiki einnig koma á góðum tíma þar sem hægt sé að nýta þá sem undirbúningsleiki fyrir HM sem er á næsta leyti.

„Við einbeitum okkur náttúrulega að þessu verkefni þar sem þetta er önnur keppni, en auðvitað veit maður af stórmótinu. En þetta eru bara leikir sem við verðum að vinna og ætlum okkur að gera það og einbeitum okkur þess vegna bara að þessu verkefni núna,“ sagði Díana að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×