Vetur konungur mætti með hvelli í nótt og íbúar víðsvegar á landinu vöknuði upp við hvíta jörð. Vetrarfærð er víðs vegar um land og aðstæður til aksturs víða slæmar. Ökumenn hafa margir lent í vandræðum það sem af er degi vegna illa útbúinna bíla. Hellisheiði var lokað snemma í morgun en fjöldi bíla festust þar um tíma. Opnað var aftur fyrir umferð klukkan rúmlega ellefu.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að björgunarsveitir hafi haft í nægu að snúast í morgun en búið sé að losa alla bíla á Hellisheiði.
„Staðan núna er nokkuð góð. Það er búið að leysa úr þeim verkefnum sem komu upp í morgun. En það varð ansi mikið kraðak snemma í morgun og sérstaklega í Hveradalabrekkunni sem þurfti að leysa úr.“

Það versta yfirstaðið fljótlega eftir hádegi
Vegum um Hafnarfjall, Öxi og Dettifossveg var einnig lokað í morgun. Í tilkynningu frá Vegagerðinni í morgun segir að vegurinn frá Kirkjubæjarklaustri að Jökulsárlóni sé á óvissustigi í dag og gæti lokað með stuttum fyrirvara. Á vef vegagerðarinnar er hægt að fylgjast með öllum nýjustu upplýsingum um færð vega á öllum landshlutum.
Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands á von á að veðrið gangi niður fljótlega.
„Núna rétt fyrir hádegi er lægðin suður af Reykjanesi og er á leiðinni austur með suðurströndinni. Það er ennþá svolítill útkomubakki yfir suðurlandinu og suðvesturhorninu en svo ætti það núna rétt eftir hádegi þá gengur lægðin hérna austur af og þá dregur hratt úr úrkomu og vindi.“

Varðandi næstu daga segir Eiríkur að nú í lok vikunnar verði frekar ákveðin norðanátt og kólnandi veður. Éljagangur á norðanverðu landinu en bjartara syðra.
„Síðan um helgina þá er útlit fyrir að það snúist aftur í suðlægar áttir og hlyni. Frekar blautar, suðlægar áttir.“