Þetta er meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglu. Ökumaðurinn neitaði einnig að segja til nafns. Var hann fluttur á lögreglustöð þar sem blóðsýni var tekið og gaf hann að lokum upp nafn að sögn lögreglu.
Þá hafði lögregla afskipti af fólki vegna töluverðrar ölvunar. Maður sem var til vandræða í 101 Reykjavík var handtekinn og vistaður í fangaklefa. Hann var meðal annars búinn að valda eignarspjöllum og var óviðræðuhæfur vegna ástands.
Annar maður var handtekinn í sama hverfi en hann er sagður hafa verið með hótanir. Var hann vistaður í fangaklefa. Kona sem féll á höfuð í sama hverfi var flutt á slysadeild þar sem hún slaut skurð við fallið.
Skemmtistað lokað
Lögregla hafði auk þess afskipti af manni í Hlíðunum þar sem hann var til vandræða að sögn lögreglu. Hann er sagður hafa verið í mjög annarlegu ástandi og í engu ástandi til að vera úti á meðal almennings. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Þá lokaði lögregla skemmtistað í miðbænum. Öllum gestum var vísað út þar sem nokkur fjöldi ungmenna var inn á staðnum. Forráðamenn staðarins eiga að sögn lögreglu von á kæru vegna málsins.
Lögregla handtók mann í Kópavogi vegna meiriháttar líkamsárásar. Var maðurinn vistaður í fangaklefa. Annar maður var auk þess handtekinn í Hólahverfi í Reykjavík. Lögregla segir manninn hafa verið algjörlega óviðræðuhæfan sökum ástands og vistaður í fangaklefa.