Þjálfaramál Breiðabliks hafa verið í brennidepli að undanförnu. Óskar Hrafn Þorvaldsson, sem stýrt hefur liðinu síðan árið 2020, óskaði eftir því að láta af störfum í desember þegar Blikar ljúka keppni í Sambandsdeildinni. Stjórn knattspyrnudeildar Blika ákvað hins vegar að Óskar myndi hætta störfum nú þegar.
Aðstoðarþjálfarinn Halldór Árnason fékk þá stöðuhækkun og var gerður að aðalþjálfara liðsins og nú hefur Eyjólfur Héðinsson verið kynntur til leiks sem nýr aðstoðarþjálfari.
Eyjólfur á glæsilegan leikmannaferil að baki en hann lék tæplega 300 leiki í öllum keppnum hér á landi auk þess að spila sem atvinnumaður með GAIS í Svíþjóð og Sönderjyske og Midtjylland í Danmörku.
Eyjólfur hefur verið í starfi hjá Blikum síðan á síðasta ári en hann hefur séð um unga leikmenn félagsins sem eru að stíga sín fyrstu skref´i meistaraflokki og verið hluti af þjálfarateymi meistaraflokksins.