Þetta kemur fram í ályktun sem flokksstjórnarfundur Samfylkingar samþykkti í gær og Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, deilir í Facebook-færslu.
Þar segir að Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands fordæmi með afgerandi hætti þá stríðsglæpi sem framdir hafa verið fyrir botni Miðjarðarhafs af hálfu Ísraelshers og Hamas-samtakanna.
„Þá skorar Samfylkingin á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að tryggja nauðsynlega mannúðaraðstoð til almennra borgara, tafarlaust vopnahlé og að þrýst verði á Ísrael að fylgja alþjóðalögum og binda endi á aðskilnaðarstefnu undanfarinna áratuga,“ segir einnig.
Í færslunni er rifjað upp hvernig Ísland varð árið 2011 fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu með samhljóða samþykkt Alþingis undir forystu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Í sömu ályktun hafi Alþingi skorað á Ísraela og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna.
„Grundvallaratriði er gagnkvæm viðurkenning Ísraelsríkis og Palestínuríkis og að áhersla verði lögð á rétt flóttamanna til að snúa aftur til Palestínu. Samfylkingin vill árétta þessa afstöðu flokksins og Íslands og skorar á ríkisstjórnina að gera slíkt hið sama,“ segir að lokum í færslunni.