Elimar Hauksson, lögmaður mannsins, sem er ákærður í málinu hefur haldið því fram að vinnubrögð lögreglu séu ámælisverð.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, tjáði sig um málið í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni. Hann segist ekki ætla að taka svo djúpt í árinni að vinnubrögð lögreglu hafi verið ámælisverð. Hins vegar hafi verið mistök að finna ekki hnífinn og að lögreglan verði að gangast við því.
Elimar gagnrýnir jafnframt að blóðferlarannsókn hafi ekki farið fram á vettvang. Grímur er ósammála þeirri gagnrýni.
„Ég er ekki alveg sammála honum í því. Það er nú þannig að annar tveggja tæknideildarmanna sem fóru þarna um er sérfræðingur í blóðferlum. Og þarna fór fram rannsókn á því blóði sem var á vettvangi. Það er ekkert þannig að í öllum svona málum séu einhverjir blóðferlar til að rannsaka,“ segir Grímur, sem tekur fram að sérstök skýrsla um blóðferla hefði engu breytt varðandi rannsókn málsins.
„Hvort að hnífurinn fannst eða fannst ekki breytir því ekki“
Grímur segist ekki vita til þess að morðvopn hafi ekki fundist við rannsókn máls, en komið í ljós síðar á Íslandi. „Í langflestum tilfellum þá bara gengur þetta ofboðslega vel. En ég bara ítreka það að við viðurkennum þarna hafi orðið mistök og við göngumst við því.“
Þá tekur hann fram að málið sé upplýst. „Hvort að hnífurinn fannst eða fannst ekki breytir því ekki,“ bætir hann við.
Grímur segir ekki ástæðu til að skoða verklag tæknideildarinnar heldur hvetur hann frekar lögreglu til að fylgja vel því verklagi sem er til staðar.