Enski boltinn

Robertson undir hnífinn og verður lengi frá

Valur Páll Eiríksson skrifar
Robertson yfirgefur grasið á Hampden Park með höndina í fatla. Hann fór úr axlarlið og þarf að fara undir hnífinn.
Robertson yfirgefur grasið á Hampden Park með höndina í fatla. Hann fór úr axlarlið og þarf að fara undir hnífinn. AP

Skotinn Andrew Robertson, vinstri bakvörður Liverpool á Englandi, þarf að fara í aðgerð á öxl og verður frá í um þrjá mánuði. Þetta staðfesti Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool á blaðamannafundi í dag.

Klopp sat fyrir svörum í aðdraganda grannaslags Liverpool og Everton sem fram fer í hádeginu á morgun er enska úrvalsdeildin fer aftur á stað eftir landsleikjahlé.

Í téðu landsleikjahléi varð Robertson fyrir meiðslunum, á fimmtudagskvöldið þarsíðasta, í 2-0 tapi Skotlands fyrir Spáni í undankeppni EM.

Sá skoski þurfti að fara af velli sárþjáður, með höndina í fatla. Í ljós hefur komið að hann fór úr axlarlið og þarf að fara í aðgerð vegna þessa, líkt og Klopp greindi frá í dag.

Búast má við því að endurhæfingartími Robertsons muni nema um þremur mánuðum og að hann spili ekki fyrr en á nýju ári.

Hann hefur spilað alla deildarleiki Liverpool á leiktíðinni en ljóst er að Grikkinn Kostas Tsimikas mun nú leysa hann af hólmi.

Liverpool er með 17 stig eftir átta umferðir í fjórða sæti deildarinnar, þremur stigum frá toppliðum Tottenham og Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×