ÍBV skoraði fyrsta markið í Garðabænum en eftir það tók Stjarnan stjórn á leiknum og lét hana aldrei af hendi. Fór það svo að Stjarnan vann sannfærandi fjögurra marka sigur, 26-22
Eva Björk Davíðsdóttir var mögnuð í liði Stjörnunnar með 10 mörk. Þar á eftir kom Embla Steinþórsdóttir með fimm mörk. Darija Zecevic varði 13 skot í markinu. Hjá ÍBV var Amelía Einarsdóttir markahæst með sjö mörk og Marta Wawrzykowska varði 12 skot.
KA/Þór gerði góða ferð í Grafarholtið og vann nauman eins marks sigur. Það virtist sem Akureyringar væru með stigin tilbúin fyrir ferðina heim á leið en Fram skoraði þrjú síðustu mörk leiksins en allt kom fyrir ekki og KA/Þór vann 22-21 sigur.
Lydía Gunnþórsdóttir var markahæst í liði gestanna með fimm mörk. Matea Lonac varði 16 skot í markinu. Hjá Fram skoraði Dagmar Guðrún Pálsdóttir sex mörk og Ethel Gyða Bjarnasen varði níu skot.
Fram er í 3. sæti deildarinnar með 8 stig líkt og ÍBV sem er sæti neðar. KA/Þór er með fimm stig í 6. sæti og Stjarnan er með þrjú stig sæti neðar.